Fræðsla

Nokkur góð ráð til viðbótar

  1. Yfirtaka lána: Þegar kaupendur eru að yfirtaka lán, sem hvíla á eign, þarf samþykki fyrir því hjá viðkomandi kröfuhafa.Staðfesting á yfirtöku lána liggur fyrir við undirritun kaupsamnings eða gengið frá því samhliða kaupsamningsgerð. Lífeyrissjóðir og sumar lánastofnanir óska eftir því að gengið sé frá skuldaraskiptum skriflega annað hvort hjá fasteignasölunni eða hjá viðkomandi lánveitanda. Huga þarf að því að sumir lánveitendur hækka vaxaprósentu við yfirtöku lána.  Fasteignasalinn sér venjulega um tilkynningu um skuldaraskiptin.

  2. Veðflutningur: Flest lán má flytja milli eigna. Kanna þarf sérstaklega hjá hverri lánastofnun þau skilyrði sem sett eru vegna þessa. Ætlaðu þér a.m.k. 10-15 daga til veðflutnings. Mikilvægt er að leita ráða hjá fasteignasalanum þínum vegna veðflutninga/veðheimilda.

  3. Aflýsing lána: Athugaðu vel rétt þinn til að halda eftir greiðslu, ef seljandi hefur ekki aflýst áhvílandi lánum á umsömdum degi. Aðeins má halda eftir greiðslu sem nemur fjárhæð þess/þeirra láns/lána sem aflýsa á eða nota greiðsluna til þess að greiða lánið upp auk kostnaðar sem falla kann á.

  4. Eignaréttur/áritun: Mundu að kaupandi fasteignar verður ekki fullkomlega löglegur eigandi fyrr en hann hefur látið þinglýsa afsali, fram að því er hún í sameign seljanda og kaupanda. Þess vegna er nauðsynlegt að þinglýsa afsali þó svo að kaupsamningi hafi verið þinglýst áður.

  5. Ráðstöfun fasteignar: Aðeins þinglýstur eigandi, afsalshafi, getur ráðstafað (selt eða veðsett) fasteign. Ef þú hyggst selja eignina sem þú átt samkvæmt kaupsamningi, þ.e. afsal hefur ekki verið gefið út, verður fyrri eigandi að árita kaupsamninginn til þess að nýr kaupandi geti þinglýst sínum samningi.

  6. Samþykki maka: Samþykki maka þinglýsts eiganda þarf fyrir sölu og veðsetningu fasteignar, ef fjölskyldan býr á eigninni eða ef eignin er notuð til atvinnurekstrar beggja hjóna eða annars þeirra.

  7. Geymið öll skjöl vegna fasteignakaupanna: Varðveitið gaumgæfilega öll skjöl sem snerta fasteignaviðskiptin, s.s. kaupsamning, afsal, veðskuldabréf, allar kvittanir, afborganir af lánum, greiðslu fasteignagjalda, húsgjalda ofl. Sú hirðusemi kemur sér ávallt vel síðar meir.

  8. Mikilvægt er að fyrir liggi yfirlýsing húsfélags m.a. um húsgjöld, yfirstandandi eða væntanlegar framkvæmdir sem búið er að ákveða á fundi húsfélags , stöðu eiganda gagnvart hússjóði og framkvæmdasjóði húsfélags. Þarna er um mikilvægan þátt að ræða sem huga þarf vel að. Það skiptir að sjálfsögðu kaupanda miklu að hafa þessar upplýsingar réttar. Slíkar upplýsingar þurfa að liggja fyrir af hálfu gjaldkera/formanns húsfélags og gæta þarf vel að því að upplýsingarnar séu nýjar. Seljandi þarf einnig að staðfesta að þessar upplýsingar séu réttar.

  9. Lögum samkvæmt eiga vera til skiptasamningar um öll fjöleignarhús til þess að hægt sé að selja einstaka hluta þess.