Fræðsla

Kaup fasteigna - góð ráð

Þegar kaupa á fasteign er mikilvægt að undirbúa kaupin vel. Þegar um fasteignaviðskipti er að tefla er að jafnaði um gríðarlega fjárhagslega hagsmuni að ræða og fólk yfirleitt að eyða mestu af sínu eigin fé og taka á sig fjárhagslegar skuldbindingar, oft tugi ára fram í tímann. Það er því mikilvægt að undirbúa kaupin vel. Hér á eftir getur þú fengið upplýsingar um hvernig best sé að undirbúa og standa að kaupunum þannig að þú sért sem best meðvitaður/uð um þau viðskipti sem framundan eru. Hér á eftir verður leitast við að skýra út það helsta sem kaupendur þurfa helst að hafa í huga.

Löggildingu dómsmálaráðuneytisins þarf til að mega hafa milligöngu um kaup, sölu eða skipti á fasteignum. Mikilvægt er því að öll ráðgjöf gegnum allt ferli viðskiptanna sé fengin frá fasteignasalanum.

Hlutverk fasteignasala er að leiða saman kaupanda og seljanda og ber honum að gæta réttmætra hagsmuna beggja. Fasteignasala er skylt er að semja fyrirfram um þóknanir gagnvart kaupanda og greina frá útlögðum kostnaði. Fasteignasali skal tryggja sér ótvírætt umboð frá réttum aðila til þeirrar milligöngu um fasteignaviðskipti sem hann tekur að sér. Hafi hann einkaumboð skal geta þess glögglega.

Fasteignasali skal hafa ábyrgðartryggingu vegna fjártjóns sem leitt getur af störfum hans eða starfsfólks hans.

Fasteignasali skal skoða eign og semja rækilegt yfirlit um aðalatriði sem máli geta skipt við sölu eignarinnar. Hann lýsir eigninni, áhvílandi lánum, verði og söluskilmálum. Hann aflar upplýsinga m.a. um fasteignamat og brunabótamat. Hann ber ábyrgð á því að allar upplýsingarnar séu réttar.

Fasteign í smíðum skal lýst nákvæmlega miðað við þann tíma þegar kaupandi á að taka við eigninni og byggingarstig skal vera í samræmi við staðla.

Fasteignasali skal annast alla skjalagerð varðandi söluna og hvílir sú skylda á honum að sitja alla fundi þar sem skjöl eru undirrituð hverju nafni sem nefnast. Hann skal leiðbeina kaupanda um gerð tilboðs og gerir drög að kaupsamningi og síðar afsali. Hann útbýr kostnaðaruppgjör milli seljanda og kaupanda varðandi söluna.