Fræðsla

Kauptilboð

Þegar kaupandi hefur fundið þá eign sem hann vill gera tilboð í aðstoðar fasteignasalinn hann við uppsetningu kauptilboðsins og gætir að hagsmunum hans eins og lög áskilja og veitir góð ráð. Mikilvægt er að hafa í huga að kauptilboð er skuldbindandi og getur sá aðili er gerir kauptilboð orðið skaðabótaábyrgur hætti hann við hafi ekki verið gerðir fyrirvarar. Í kauptilboðinu er kveðið á um með hvaða hætti greiðslur eigi að berast og hve hátt lán kaupandinn ætli að taka hjá lánastofnun. Þar er kveðið á um fyrirvara oft 7-14 dagar að kaupandi fái lánsloforð innan þes tíma. Sé lán ekki veitt er kauptilboðið að jafnaði fallið niður og tilkynnir fasteignasalinn seljanda þegar um þá niðurstöðu og má þá segja að málin séu komin á byrjunarreit að nýju. Gangi á hinn bóginn allt eftir og lán fáist boðar fasteignasalinn til kaupsamnings hið fyrsta.

Kaupsamningur

Gangi kauptilboð eftir með þeim hætti sem samið er um er fljótlega boðað til kaupsamnings. Þegar fasteignasali gengur frá kaupsamningi veitir hann faglega ráðgjöf og gætir hagsmuna bæði seljanda og kaupanda í hvívetna m.a. þess að réttmætra hagsmuna beggja sé gætt og að ekki séu settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir kostir í samningum. Í kaupsamningnum eru njörvuð niður öll samningsákvæði milli kaupanda og seljanda og fer fasteignasali rækilega yfir alla þætti samningsins og skýrir fyrir aðilum allt það sem kann að vera óljóst. Mikilvægt er að huga að því verði breytingar frá kauptilboði til kaupsamnings að aðilum sé kynnt með rækilegum hætti hverjar þær eru og hvaða afleiðingar þær kunni að hafa en til þeirra breytinga þarf samkomulag milli kaupanda og seljanda. Við kaupsamning er skuldabréfið (lánið) undirritað af bæði seljendum og kaupendum og fasteignasalinn kemur kaupsamningnum til þinglýsingar.

Mikilvægt er að þess sé gætt að kaupsamningsgreiðslur séu greiddar á gjalddaga. Seljanda er heimilt að reikna dráttarvexti á vanskil frá þeim degi. Ef gjalddaga ber upp á helgidegi er fyrsti virki dagur þar á eftir greiðsludagur.

Að lokinni þinglýsingu kaupsamnings og skuldabréfs

Fasteignasalan sér eins og áður segir um að gæta hagsmuna bæði kaupanda og seljanda meðal annars varðandi þinglýsingu kaupsamnings og skuldabréfs enda mikilvægt að öll skjalavistun sé í fullkomnu lagi og hagsmunir beggja séu tryggðir. Þegar kaupsamningi hefur verið þinglýst kemur fasteignasali þinglýstu frumriti til kaupanda. Hvað skuldabréfið (lánið) varðar sem fasteignasali fór með til þinglýsingar þá er þinglýsingu að jafnaði lokið á tveimur dögum og kemur fasteignasali þá að þinglýsingu lokinni skjalinu til lánastofnunar sem greiðir andvirði bréfsins beint inn á reikning seljanda eða samkvæmt öðrum fyrirmælum aðila. Ef afhendingardagur breytist frá því sem um er samið í kaupsamningi þá er mikilvægt að láta fasteignasölu vita enda mikilvægt vegna kostnaðaruppgjörs í lokin.

Frá því kaupsamningur er gerður og fram að afsali

Þarna er um að ræða mjög mismunandi tímalengd en hún ræðst af samkomulagi kaupanda og seljanda. Komi á þessum tíma upp að seljandi telji eignina ekki í samræmi við það sem kveðið hefur verið á um í söluyfirliti, samningum eða því sem seljandi hefur veitt upplýsingar um er rétt að snúa sér til fasteignasalans til ráðgjafar. Fasteignasalinn ráðleggur aðilum um framhald málsins og reynir sættir með þeim þar sem hann á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar reynir að miðla málum enda oft mjög kostnaðarsamt að leita aðstoðar lögmanna og hugsanlega að þurfa að fara dómstólaleiðina. Rétt er að benda á að þó svo afsal hafi verið gefið út og í raun afskiptum fasteignasalans sé lokið þá eru oft ýmsir betri fasteignasalar sem veita ráðgjöf þrátt fyrir það, enda mjög margir fasteignasalar sem hafa þann metnað að viðskipti sem þeir hafa haft milligöngu um séu hnökralaus og fullkomin þjónusta veitt viðskiptavinunum.

Kaupandi á ekki að bæta úr hinum meinta galla án samráðs við seljanda og fasteignasöluna. Ekki má halda eftir hærri greiðslu en sem nemur þeirri fjárhæð sem ætla má að kosti að bæta úr hinum meinta galla.